Um PRS Iceland
PRS skotíþróttasamtök Íslands eru nú á sínu fjórða starfsári. Félagið hefur það að markmiði að halda mótaseríur og mót fyrir riffilskotfimi nákvæmnisriffla. Núna eru í gangi tvær mótaseríur, annars vegar PRS serían (Precision Rifle Series) sem er fyrir riffla með miðkveikt caliber og hins vegar PR22 (Precision Rifle .22lr) sem er fyrir riffla með randkveiktu .22lr kaliberi.
PRS mótin eru þannig gerð að skotnar eru þrautir úr ýmsum skotstöðum á stálskotmörk í fjarlægðunum 200-800 metra aðallega en jafnvel lengra ef skotvöllur leyfir. Sem dæmi um þraut í móti byrjar skotmaður með 10 skot og á að skjóta skotmörk í fjarlægðum 365m og 525m á tíma. Stöðurnar eru kannski fimm, ein í hnjástöðu, ein í standandi stöðu, ein í liggjandi stöðu og svo aftur í hnjástöðu og því næst aftur í standandi stöðu. Skotið er af staurum og skal skytta skjóta eitt skot á hvert skotmark í hverri stöðu og tíminn til að leysa þrautina er í þessu dæmi 105 sekúndur. Eitt stig er gefið fyrir hvert hitt og sigrar sá sem er með flest hitt úr öllum þrautunum. Engar sérstakar reglur eru um hönnun þrautanna en lykilatriði er að hafa þrautirnar þannig að skyttur af öllum færnistigum eigi möguleika á að leysa þær. Keppt er bæði í Opnum flokk þar sem allar löglegar breytingar og sérsmíði á rifflum eru leyfðar og svo í Verksmiðjuflokk þar sem takmarkanir eru á leyfilegum breytingum.
Haldin eru sjö mót í ár. Tvö mót hjá Skyttum í Rangárvallasýslu, Tvö mót hjá Skotgrund í Kolgrafarfirði þar sem annað var tveggja daga mót, eitt tveggja daga mót hjá Skaust á austurlandi og tvö mót hjá Skotdeild Keflavíkur á riffilsvæði þeirra við Hafnir.
PR22 mótin verða 10 samtals í ár og á Bjarni Valsson hjá Skotfélagi Kópavogs stærsta heiðurinn af því að þessi mótasería er til. Fjögur mót voru haldin innandyra í Digranesinu hjá Skotfélagi Kópavogs, eitt mót í Kolgrafarfirðinum hjá Skotgrund sem Arnar Geir, Kári og Gunnar sjá um mótshald , eitt mót hjá Skaust á austurlandi sem Paul Jepsen sá um mótshald og þrjú mót á riffilsvæði Skotdeildar Keflavíkur við Hafnir.
Þegar þetta er skrifað hafa 37 skyttur keppt í PR22 seríunni, 27 skyttur keppt í Opnum flokki í PRS seríunni og 13 skyttur keppt í Verksmiðjuflokk PRS seríunnar.
Dagana 11.-17. September 2024 halda alþjóðasamtök nákvæmnisriffla, IPRF (International Precision Rifle Foundation), heimsmeistaramót í Grand Junction, Colorado í Bandaríkjunum. Fimm liðsmenn keppa fyrir hönd Íslands í ár og eru það þeir Þorgrímur Dúi Jósefsson, Steinar Smári Guðbergsson, Arnar Geir Diego, Jóhannes Ingibjartsson og Einar Pétursson. Þar koma saman 270 skyttur frá 23 löndum og etja kappi um hver er besta skyttan með besta riffilinn. Þetta verður mikil reynsla og lærdómsríkt þar sem bærinn stendur í rúmlega 1400 metra hæð og meðalhitinn á þessum árstíma er um 30° og verður því áhugavert að sjá hvort íslensku hleðslurnar eiga eftir að skjóta þarna úti…
Skotgrund á Snæfellsnesi hefur lagt í gríðarlegar umbætur á svæðinu sínu núna undanfarið og er svæðið orðið þannig að það er með flottustu skotsvæðum í Evrópu til PRS skotfimi. Eftir að alþjóðlegur stjórnandi PRS kom til Íslands í sumar og keppti við okkur þá var ákveðið að halda evrópskt Pro Series mót í Kolgrafarfirðinum árið 2025. Pro Series mót er hluti af samevrópskskri mótaseríu sem jafnframt telur til stiga í þeirri bandarísku og munu allar flottustu PRS skyttur Evrópu mæta og leika sína snilli af fingrum fram.
Þetta eru skemmtilegir og spenndandi tímar hjá PRS á Íslandi og mig langar að nota tækifærið til að þakka Magnúsi Ragnarssyni og stjórn hjá Skyttum, Bjarna Sigurðssyni og stjórn hjá Skotdeild Keflavíkur, Paul Jepsen og stjórn Skaust fyrir austan, Bjarna Vals og Skotfélagi Kópavogs og síðast en ekki síst Arnari Geir Diego og stjórn Skotgrund fyrir að taka þátt í og veita tækifæri til framþróunar skotíþrótta á landinu.
Formaður stjórnar, Einar Pétursson